Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 181. máls.

Þskj. 194  —  181. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)



1. gr.

    3. tölul. 3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og lífeyrissjóðir sem og vörslufyrirtæki slíkra sjóða.

2. gr.

    7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. c-lið 6. tölul. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Á síðasta löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi lög nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl. Með lögunum var innleidd hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE (e. Markets in Financial Instruments Directive eða MiFID-tilskipunin). Samhliða lögum nr. 111/2007 voru sett ný lög um kauphallir, nr. 110/2007, og ný lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Lög nr. 111/2007 taka gildi 1. nóvember nk.
    Með b-lið 1. gr. laga nr. 111/2007 var 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, breytt en þar er kveðið á um undanþágur fyrir tiltekna aðila frá skilyrðum laganna um starfsleyfi. Í tengslum við breytingar sem gerðar voru við meðferð frumvarpsins á Alþingi láðist að fella brott úr ákvæðinu tilvísun til rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Því verða rekstrarfélög verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu undanskilin gildissviði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, frá gildistöku breytingalaganna 1. nóvember en það fer gegn öðrum ákvæðum laganna sem hafa þvert á móti að geyma ýmis ákvæði er varða slík rekstrarfélög.
    Með a-lið 1. gr. laga nr. 111/2007 var 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 jafnframt breytt. Við breytingu ákvæðisins riðlast röð stafliða þess frá því sem nú er, hins vegar láðist
að gera ráð fyrir breytingunni í 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, þar sem vísað er til stafliðar í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga.
    Úr fyrrgreindum ágöllum er brýnt að bæta sem fyrst og er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæði 3. mgr. 3. gr. í gildandi lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, hefur að geyma undantekningar fyrir tiltekna aðila frá skilyrðum a-liðar 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Umræddir aðilar geta með öðrum orðum sinnt tiltekinni starfsemi, þ.e. móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga og framkvæmd slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila, án þess að hafa til þess starfsleyfi. Vegna innleiðingar MiFID-tilskipunarinnar var núgildandi a-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. skipt upp í tvo sjálfstæða liði, a- og b-lið, með lögum nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl.
    Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2007 var upphaflega lagt til að inngangsmálsliður 3. mgr. 3. gr. yrði samhljóða gildandi ákvæði að teknu tilliti til breytinga á stafliðum 6. tölul. 1. mgr. greinarinnar. Orðalagi inngangsmálsliðararins var hins vegar breytt úr „Þrátt fyrir 1. mgr. geta eftirtaldir aðilar sinnt starfsemi skv. a- og b-lið 6. tölul. 1. mgr. án starfsleyfis“ í „Aðilar þessir falla ekki undir gildissvið laganna“ samkvæmt breytingatillögu viðskiptanefndar Alþingis og þannig varð ákvæðið að lögum. Þegar lög nr. 111/2007 öðlast gildi, hinn 1. nóvember nk., mun 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, fela í sér að tilteknir aðilar verða undanþegnir gildissviði laganna. Þar á meðal verða rekstrarfélög verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, en ætlunin var ekki að undanþiggja þessa aðila ákvæðum laganna í heild.
         Með frumvarpi þessu er lagt til að tilvísun til rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu verði felld brott úr 3. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/ 2002, þar sem lögin gilda um fyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi skv. 6. gr. laganna, sbr. 4. gr. þeirra. Þeirra á meðal eru rekstrarfélög verðbréfasjóða, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna, og lögin hafa að geyma ýmis ákvæði er varða slík rekstrarfélög.

Um 2. gr.


    Í 3. gr. gildandi laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, er afmarkað hvaða starfsemi er starfsleyfisskyld samkvæmt lögunum. Í greininni felst að ekki má stunda þá starfsemi sem þar er talin upp, í sjö töluliðum, án starfsleyfis. Í 6. tölul. 1. mgr. greinarinnar er fjallað um viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
    Með 1. gr. laga nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl., var framangreindum tölulið breytt til samræmis við A-hluta viðauka I í MiFID-tilskipuninni. Stafliðum 6. tölul. 1. mgr. greinarinnar var með öðrum orðum fjölgað úr fjórum í sex (a–g- liðir). Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að eignastýring verði eftir sem áður starfsleyfisskyld starfsemi. Það sem breytist við gildistöku laga nr. 111/2007 er að kveðið verður á um það í c-lið 6. tölul., en í gildandi lögum er eignastýring talin upp í b-lið 6. tölul. Við setningu breytingalaganna láðist hins vegar að gera ráð fyrir þessari breytingu í 7. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Hinn 1. nóvember nk. verður tilvísun til b-liðar 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 tilvísun til framkvæmdar fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavinar sem starfsleyfisskyldrar starfsemi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
    Ekki stóð til að breyta starfsleyfisheimildum rekstrarfélaga verðbréfasjóða á þá vegu að fella niður heimildir slíkra félaga til öflunar starfsleyfis vegna eignastýringar. Þvert á móti er gert ráð fyrir því í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 111/2007 að rekstrarfélög verðbréfasjóða sinni eignastýringu, á grundvelli starfsleyfis, hér eftir sem hingað til. Annað væri enda í ósamræmi við 27. gr. laga nr. 161/2002 er kveður á um starfsheimildir rekstrarfélags og ekki var hróflað við með lögum nr. 111/2007. Samkvæmt greininni er rekstarfélagi heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi, auk reksturs verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu: Eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf, vörslu og stjórnun fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu. Ákvæði 27. gr. laga nr. 161/2002 byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, með síðari breytingum, og var ekki breytt við innleiðingu MiFID-tilskipunarinnar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002,
um fjármálafyrirtæki.

    Með frumvarpinu eru lagðar til tæknilegar breytingar á 3. og 4. gr. laganna sem snúa annars vegar að leyfisskyldri starfsemi og hins vegar að tegundum starfsleyfa.
    Verði frumvarpið að óbreyttu samþykkt verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.